föstudagur, mars 24, 2006

Hár og klipp

Ferill minn í að klippa eigið hár byrjaði þegar ég var þriggja ára. Þá komst ég í skæri inná bað og klippti fínt skarð í toppinn minn. Man ekki eftir þessu afreki, en af myndum að dæma þá tókst mér nokkuð vel upp.

Þegar ég svo komst á unglingsárin þá fannst mér ég frekar góð í að klippa þannig að ég sá ekki ástæðu til að borga neinum fyrir þessa þjónustu. Líka frekar svalt að vera sjálfklippt í sérsniðnum fötum úr Kolaportinu.

Þegar ég skreið yfir tvítugt prófaði ég að fara til verðandi fagmanns og varð svona líka sátt við handverkið. Lagaði það þó aðeins sjálf, bara smá snip snip. Upp frá þessu hefur mér fundist þægilegast að láta fagmenn sjá um hárið mitt.

Áðan ákvað ég þó að rifja upp gamla takta og klippa aðeins í toppinn. Byrjaði vel, var nokkuð sátt. Fyrst að það heppnaðist svona vel þá ákvað ég að láta vaða og klippa bara burt sveip sem ég er með og fer soldið í taugarnar á mér. Áður en ég vissi af var ég komin með massív kollvik og mjög svo undarlega klippingu.

Gauti sagði eitthvað um að ég minnti sig á söngvarann í Slayer, veit ekkert hvað hann er að tala um.

Hjúkket, fékk tíma í klippingu á morgun!

sunnudagur, mars 12, 2006

Óþægileg óregla!

Einu sinni fannst mér ótrúlega fínt að vaka alla nóttina og sukka frameftir öllu. Í dag finnst mér það ekki.

Ég vil vera komin heim af djamminu ekki mikið seinna en um klukkan þrjú. Ef ég er heima um föstudags- eða laugardagskvöldi þá vil ég vera sofnuð fyrir svipaðan tíma og alls ekki seinna en fjögur.

Hef verið að velta fyrir mér af hverju þessi breyting stafar. Gæti verið að mér finnist fínt að geta nýtt daginn sem kemur svo, að vera ekki of ónýt þá. Aldurinn hefur auðitað eitthvað með þetta að gera, spurning hvert hlutverk hans er. Getur verið að þolið minnki. Þegar þolið minnkar þá lengist tíminn sem fer í að taka afleiðingunum.

Hugsanlegt að fleiri ár gefi af sér meiri reynslu sem svo gefur af sér meiri vit sem svo gefur eitthvað af sér sem má kalla skynsemi. Eða hvað?

Örugglega bara það að það fari meiri tími í að taka afleiðingunum - skynsemin ræður svo hvort maður noti þá vitneskju eða ekki ;)

mánudagur, mars 06, 2006

Var að horfa á Kastljós. Þar voru komnir tveir menn frá 1-1-2 til að kenna fólki hvernig eigi að bregðast við ef einhver hnígur niður fyrir framan mann - blása tvisvar og hnoða 30 sinnum. Þetta finnst mér vera MJÖG mikilvægar upplýsingar. Svo mikilvægar að ég hóaði í fólk sem var nálægt mér til að það gæti líka fylgst með þessari kennslustund í sjónvarpinu. Þeim fannst það ekki mjög svo merkilegt og voru ægilega mikið að drífa sig að fara.

Er ekki mikilvægt að kunna að bregðast rétt við ef einhver hnígur niður fyrir framan mann? Það er varla hægt að gera neitt rangt í slíkum tilfellum, nema að gera ekki neitt. Líkurnar á því að maður geri ekki neitt eru meiri ef maður veit ekki hvernig eigi að bregðast við. Maður er hræddur við að skemma eitthvað eða gera eitthvað vitlaust, þannig að maður gerir kannski ekki neitt. Það væri synd að deyja einungis vegna fáfræði nærstaddra.